Í dag er Alþjóðlegur dagur leiklistar.
Svona í tilefni þess langar okkur að skrifa hvað helst er að frétta frá okkur.

Ákvörðun var tekin um að starfsemi flokksins skyldi liggja í dvala út núlíðandi leikár vegna Covid. Við erum þó ekki búin að sitja aðgerðarlaus þar sem tíminn hefur meðal annars verið nýttur til undirbúnings næsta söngleikjar sem áformað er að sýna um páskana 2022. Einnig hefur verið ákveðið að fara í uppsetningu á barnaleikriti um komandi jól. Verða þau verkefni kynnt nánar síðar.

Leikflokkurinn fékk skemmtilegt bréf frá bresku bókaútgafunni White Lion, Quarto Publishing nú á dögunum þar sem beðið var um ljósmyndir úr uppfærslu leikflokksins á Hárinu til birtingar á bókinni How to live Icelandic en mun hún koma út í nóvember.

Stjórn leikflokksins sendi frá sér á dögunum bréf til þingmanna Norðvestur kjördæmis og Mennta- og menningarmálaráðherra vegna ástands starfstöðvar okkar, Félagsheimilisins á Hvammstanga. Má segja að bréfið hafi borið einhvern árangur þar sem boðað hefur verið til fundar með ofangreindum ráðherra ásamt ráðherra sveitastjórnamála.

Annars bíðum við bara spennt eftir komandi hausti þar sem starfsemi leikflokksins mun hefjast á ný með skemmtilegum og litríkum verkefnum.

Deila þessu: