Project Description
Súperstar
Rokkóperan Súperstar, samin af Andrew Lloyd Webber og Tim Rice, fagnaði 45 ára afmæli haustið 2015, en hún var fyrst sett upp árið 1970 í New York í Bandaríkjunum. Verkið náði strax gífurlegri útbreiðslu og hefur æ síðan verið einn af vinsælli söngleikjum vestanhafs.
Texti verksins er einkum sóttur í Jóhannesarguðspjall og skoðar Rice atburðarásina frá sjónarhóli Júdasar og gerir hann að höfuðpersónu óperunnar. Júdas er jarðbundinn og hann skilur ekki Jesú, sem sér hlutina í stærra samhengi og fylgir guðlegri köllun sem leiðir til krossfestingar. Eins og í mörgum verkum kemur ástin einnig inn í söguþráðinn og er það María Magdalena sem þarf að takast á við tilfinningar sínar gagnvart Jesú.
Verkið var flutt í íslenskum búningi Hannesar Arnar Blandon og Emelíu Baldursdóttur. Leikstjóri var Sigurður Líndal Þórisson.
Sigurður Líndal Þórisson leikstýrði sýningunni og hafði þetta að segja við sýningargesti sem voru m 900 manns sem verður að teljast til afreks í 1200 manna samfélagi:
„Leikhús, í þeirri merkingu sem við leggjum í hugtakið, hófst hjá forngrikkjum um 700 árum fyrir Kristsburð. Þá var strax byrjað að tala um dauða þessa listforms, og hefur sú umræða staðið linnulítið í 2700 ár.
Í forngríska leikhúsinu var líka stuðst við hljóðfæraleik, söng og dans, en þó er vart hægt að tala um þau leikverk sem söngleiki. Fræðimenn hafa lengi þráttað um hver sé fyrsti söngleikurinn – söngleikur er þá skilgreindur sem sviðsverk þar sem leikur, söngur og dans mynda órjúfanlega dramatíska heild með linnulausri framvindu – The Black Crook (1866) er oft nefndur til sögunnar, en í mínum huga er ljóst að nokkur þáttaskil verða þegar Show Boat (1927) kemur fram á sjónarsviðið.
Það er margt óvanalegt við leikhúsbransann, en kannski er það merkilegasta af öllu, svo vitnað sé í handritshöfundinn stórkostlega William Goldman, að „það veit enginn neitt“. Eftir næstum 3000 ár þá veit enginn hvað muni falla í kramið hjá áhorfendum, eða hvernig skuli haga framleiðslunni þannig að allt gangi upp. Margir hafa reynt; skrifað kenningar og búið til formúlur – þeim speking- um mistekst ekki sjaldnar en okkur hinum sem erum enn að leita að svarinu.
Það er svo margt sem getur farið úrskeiðis við eina uppsetningu að í rauninni er stórmerkilegt að nokkurntíma verði til gott leikhús. Á enskri tungu er oft talað um samfélagsleikhús, sem getur verið bæði leikhús áhuga- og atvinnumanna, og er það gott hugtak.
Samfélagsleikhús er ekki einungis afsprengi samfélagsins, heldur líka samfélaginu til góða. Samfélags- leikhús styrkir samheldni. Samheldni býr til sterkara samfélag; sterkara sam- félag býr til sterkara samfélagsleikhús.
Mörg ykkar sem þetta lesið getið með réttu kallað þetta leiksýninguna ykkar, þó svo að þið standið ekki á sviði og hafið aldrei séð hana áður. Þið sem pössuðuð börnin; þið sem lánuðuð og gáfuð; þið sem sáuð af mökum, vinum, börnum og foreldrum í marga klukkutíma, margoft; öll þið sem aðstoðuðuð okkur með ráði og dáð, í litlu og stóru:
Takk.
Þið eigið þessa sýningu.“
„Takk kærlega fyrir stórkostlega sýningu í gær. Ég hafði smá áhyggjur fyrir sýningu þar sem væntingarnar hafa smátt og smátt verið að skrúfast upp eftir að hafa lesið komment fyrri gesta og spjallað við vini og vandamenn sem höfðu séð sýninguna. En maður minn þó ég hefði miklar væntingar fyrir sýningu þá tókst ykkur að fara svo langt fram úr þeim að það hálfa væri nóg. Það er sama á hvað er litið – allt í tenglsum við þessa sýningu er framúrskarandi og unnið af svo mikilli fagmennsku að unun er á að horfa og hlýða. Hafið öll sem eitt hjartans þökk fyrir ógleymanlega sýningu.