Áhugaverðasta sýningin
Eftir 5 frábærar sýningar og eina aukasýningu dagana 17. – 22.apríl 2019 á söngleiknum Hárið er það sannkallað kirsuber ofaná ísinn að fá þá heiðursviðurkenningu að vera valin áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins 2019. Leikflokkurinn eins og hann leggur sig er auðvitað að springa úr stolti og einskærri gleði. Í verðlaun fáum við að sýna Hárið í Þjóðleikhúsinu.
Það er í tuttugasta og sjötta sinn sem þessi viðurkenning er veitt af Bandalagi íslenskra leikfélaga. Í dómnefnd þetta árið sátu Atli Rafn Sigurðarson (formaður dómnefndar) með honum í dómnefnd sátu þrír aðrir leikarar Þjóðleikhússins, þau Sigurður Sigurjónsson, Snæfríður Ingvarsdóttir og Þórey Birgisdóttir.
Viðtökurnar hérna heima voru æðislegar og fjöðurin í hattinn er umsögn dómnefndar Bandalagsins. Takið eftir að jólasýning Leikflokksins, Snædrottningin, í leikstjórn Gretu Clough, fékk einnig frábæra dóma hjá Bandalaginu.
„Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikflokks Húnaþings vestra á Hárinu eftir Gerome Ragni og James Rado í leikstjórn Sigurðar Líndal Þórissonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018-2019. Um efni Hársins þarf ekki að fjölyrða. Sýningin er hins vegar unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Leikmynd, búningar og leikgervi, dansar, tónlistarflutningur, lýsing og hljóðblöndun skapa saman sterka heild. Stór leikhópurinn er skipaður hæfileikafólki sem nýtur sín í botn, og sterkur söngur, leikgleði og orka er allsráðandi. Afslappaður leikurinn skilar frásögninni á einlægan og einfaldan máta þannig að húmor og boðskapur verksins komast vel til skila. Það skal tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikflokks Húnaþings vestra er valin áhugasýning ársins, og það vakti sérstaka athygli dómnefndar hvað starfsemi leikflokksins er öflug í ár. Önnur sýning leikflokksins kom einnig sterklega til greina við valið, Snædrottingin í leikstjórn Gretu Clough, sem er listræn, frumleg og athyglisverð sýning. Tónlistin er falleg og útfærsla leikmyndar og lýsingar er einkar áferðarfögur. Leikhópurinn er að stórum hluta skipaður börnum á grunnskólaaldri sem njóta sín vel.“
Við förum því með hjartað alveg kringlótt af gleði og hamingju á Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu í júní og komum þar fram sem hippar á tímum stríðsátaka og uppreisnar.
Leave A Comment